Hótel úti á landsbyggðinni skila inn tapi, kostnaður er of hár miða við tekjur og vöxtur ferðaþjónustunnar fer minnkandi eru varnarorð sem berast nú frá umsjónaraðilum ferðaþjónustunnar.

Á síðustu árum hefur atvinnulífið kallað eftir launahækkunum á sama tíma og krafa er gerð um aukin gæði þar sem við viljum frekar fá til okkar ferðamenn sem dvelja lengur og eyða meiru. Þessir ferðamenn vita oftast hvað þeir eiga að fá fyrir peninginn þannig að ef þeir fá herbergi á einföldu gistiheimili á sama verði og 5 stjörnu hótel í stórborg þá eru ekki miklar líkur á því að þeir fari þaðan ánægðir.

Rekstur gistirýma er kostnaðarsamur þar sem launakostnaðurinn er oft hæstur og því finnst rekstaraðilum oft að það eina í stöðunni sé að fækka starfsfólki sem leiðir til meira álags á þá sem eftir eru og þar með skerðist þjónustan.

En stöldrum aðeins við því í raun er ýmislegt hægt að gera til þess spara tíma starfsmanna og nýta þannig krafta þeirra þar þeirra er þörf.

1. Tæknin

Það er ekki langt síðan að allar bókanir voru handskrifaðar í bók og móttakan þurfti að hlaupa um allt hús til að athuga hvort búið væri að þrífa herbergin. Í dag hafa, sem betur fer, flest hótel fundið einhverja lausn á þessu með fjölbreyttum hótelstjórnunarkerfum en oft eru ekki allir eiginleikar og viðbætur þeirra nýttir að fullu. Það eru til ótrúlega margar lausnir sem einfalda umsýslu herbergjabókanna.

Í hótelstjórnunarkerfinu Roomer PMS er t.d. hægt að setja upp reglur sem hækkar og lækkar verðið sjálfkrafa, miða við nýtingu, á öllum sölurásum hótelsins. Einnig er hægt að láta loka fyrir ákveðnar sölurásir t.d. þegar nýtingin er komin á ákveðið stig og þú vilt aðeins taka við bókunum í gegnum eigin heimasíðu.  Með þessu getur þú sparað tíma sem á við 1/2 starfsmann á sama tíma og þú hámarkar tekjur með því að rukka ekki of lágt verð þegar lítið er um laus herbergi og á móti of hátt verð þegar framboðið er mikið.

Einnig býður kerfið upp á byltingakennt þrifa- og viðhalds-app þar sem starfsmenn geta skráð beint inn í spjaldtölvu upplýsingar um stöðu herbergja hverju sinni. Þernan merkir herbergin hrein um leið og hún er búin og það þarf ekki að athuga þrisvar hvort það sé nú ekki örugglega búið að gera við kæliskápinn í herbergi 202. Með tímastjórnunar-appinu er svo hægt að ganga úr skugga um það hvort tíminn sé ekki örugglega að nýtast sem best og að enginn óþarfa mannskapur sé á vakt.

Og ekki gleyma því að hægt er að samnýta kerfin þannig að veitingahúskerfið, hótelstjórnunarkerfið og bókhaldið vinni saman. Þannig getur þjónninn bætt veitingunum á herbergin og þegar gesturinn greiðir reikninginn sinn í móttökunni við útritun færist allt yfir í bókhaldið sjálfkrafa. Hér sparar þú tíma og lágmarkar villur sem geta leitt af sér háan aukakostnað.

2. Þjálfun starfsmanna.

Að þjálfa starfsfólk er vissulega kostnaðarsamt en það er fjárfesting sem skilar sér! Rannsóknir hafa sýnt að með réttri fræðslu og þjálfun geta fyrirtæki aukið framleiðni og bætt gæðin en góð þjálfun minnkar rýrnun, fjarveru starfsmanna, kvartanir og starfsmannveltu. Við hjá Hótelráðgjöf bjóðum upp á sérsniðnar lausnir og einnig er vefur fræðsluseturs ferðaþjónustunnar mjög góður ef hótelstjórnendur vilja kynna sér frekari möguleika. Munið einnig að mörg stéttarfélög greiða oft hluta af námskeiðskostnaðinum.

3. Verkferlar

Með því að setja upp verkferla sem starfsmenn geta auðveldlega fylgt þá nýtist hver klukkutími betur, sjálfsöryggi starfsmanna eykst og þjónustan verður betri. Þegar starfsmaður veit hvað er ætlast til af honum verður hann sjálfsöruggari í starfi sem leiðir til þess að hann getur veitt betri þjónustu. Að auki veitir það stjórnendum tækifæri til að skoða hvort það leynist einhvers staðar svigrúm til að víkka/breyta starfssviðum starfsmanna og færa til stöðugildi.

4. Fagmaður í hlutastarfi

Flestir kannast við það að framboð og eftirspurn hefur mikil áhrif á verðlagningu en að auki hafa þessar breytur áhrif á mannaforða. Á undanförnum árum hafa hótel, gistiheimili, farfuglaheimili, bændagistingar og Airbnb íbúðir verið að byggjast upp víða um land. Þar sem vöxturinn hefur verið mikill á stuttum tíma er orðinn skortur á menntuðum einstaklingum innan hótelgeirans. Atvinnuleysi hefur aldrei verið minna, fagfólk í fullu starfi er oft dýr kostnaðarliður og á sama tíma berast áhyggjuraddir af gæðum ferðaþjónustunnar og að hún haldist ekki í hendur við verðlagningu.

Eigendum / rekstaraðilum finnst því oft eina lausnin í stöðunni vera að keyra sig út í vinnu eða sameinast hótelkeðjum sem hafa fagmenn á sviði tekjustýringar, sölu og markaðsmála, fjármála, gæða og mannauðstjórnunar í sínum höfuðstöðvum. En það er einnig önnur lausn. Nú geta hótel sem og minni gististaðir sem hafa ekki fjármagn til að ráða sérfræðinga í fullt starf ráðið fagmann í hlutastarf til að sinna þessum málum þegar þörf er á. Hjá okkur geta allir sótt fagmannlega ráðgjöf hjá sérfræðingum varðandi stök verkefni og/eða yfir ákveðið tímabil.

Það er mikilvægt fyrir framtíðina að ferðaþjónustan vaxi og dafni á jákvæðan hátt. Það er nokkuð ljóst að þeir ferðamenn sem fara frá okkur óánægðir, koma í fyrsta lagi ekki aftur og eiga eftir að dreifa neikvæðu upplifun sinni sem mun til lengri tíma skapa slæmt orðspor fyrir Ísland sem áfangastað.

Ferðaþjónustan er viðkvæm atvinnugrein sem getur ekki hækkað verðlag á sama hraða og kostnaðurinn virðist vera að hækka; en áður en farið er í aðgerðir sem skerðir gæði og þjónustu þá er mikilvægt að kynna sér aðrar leiðir í sparnaði!